Þór og Egill Íslandsmeistarar í júdó

(Frá vinstri) Jakub Tomczyk, Egill Blöndal, Breki Bernharðsson og Þór Davíðsson. Ljósmynd/Aðsend

Þór Davíðsson og Egill Blöndal, Umf. Selfoss, urðu Íslandsmeistarar í sínum þyngdarflokkum þegar Íslandsmótið í júdó var haldið í Digranesi í Kópavogi fyrr í mánuðinum. Júdódeild Selfoss sendi sex keppendur til leiks að þessu sinni og unnu þeir til fjölda verðlauna.

Þór keppti til úrslita -100 kg flokki við efnilegan júdómann, Matthías Stefánsson úr ÍR. Þór sýndi styrk sinn og stóð uppi sem sigurvegari eftir vel útfærða glímu.

Egill varði titil sinn frá 2021 og sigraði sinn flokk með nokkrum yfirburðum. Hann vann allar sínar glímur og engin þeirra náði einni mínútu og sú stysta var 20 sekúndur. Baráttan hjá Agli um Íslandsmeistaratitilinn var við Breka Bernharðsson, einnig frá júdódeild Selfoss. Breki sýndi góð tilþrif gegn Agli en varð að játa sig sigraðann um miðja glímu. Breki hlaut því silfurverðlaunin og átti mjög góðan dag en hann hafði unnið sínar þrjár glímur á ippon áður en kom að viðureigninni við Egil.

Egill keppti einnig í opnum flokki þar sem var mikil þátttaka. Hann mætti Zaza Simionisvhili frá Georgíu í úrslitum í mjög jafnri viðureign en Zaza tókst að knýja fram sigur í framlengingu.

Jakub Tomczyk keppti í -81 kg flokki og vakti eins og oft áður mikla athygli fyrir frammistöðu sína. Fyrsta viðureign var við Andres Palma, öflugan og skemmtilegan júdómann úr Júdódeild Ármanns, sem Jakub sigraði á glæsilegu ippon kasti. Hann vann síðan Garðar Sigurðsson JR og var þar með kominn í úrslit þar sem hann tapaði Jakub gegn Gísla Egilssyni JG. Jakub varð því í 3. sæti.

Sigurður Hjaltason tók í fyrsta sinn þátt í Íslandsmóti í +100 kg flokki og stóð sig með ágætum en andstæðingur hans var nýbakaður Norðurlandameistari í þungavigt, Karl Stefánsson, Ármanni. Það var á brattann að sækja hjá Sigurði og fór svo að Karl sigraði og Sigurður hlaut silfurverðlaun.

Þá tók Böðvar Arnarsson þátt í 83 kg flokki þar sem hann mætti sterkum keppendum og möguleikar Böðvars að komast áfram voru litlir. Sú varð raunin og uppskeran rýr í þetta skiptið.

Sigurður Hjaltason, Umf. Selfoss og Karl Stefánsson, Ármanni. Ljósmynd/Aðsend
Fyrri greinGísella dúxaði með næst hæstu einkunn í sögu skólans
Næsta greinGrýlupottahlaup 6/2022 – Úrslit