Þór missti af lestinni í fyrri hálfleik

Nikolas Tomsick. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar frá Þorlákshöfn töpuðu gegn spræku liði Stjörnunnar í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld, 89-73 á útivelli í Garðabæ.

Þórsliðið náði sér engan veginn á strik í fyrri hálfleik og staðan í leikhléi var 52-32 fyrir Stjörnunni. Leikur Þórs lagaðist mikið í seinni hálfleik en munurinn var þegar orðinn of mikill og Þórsurum tókst ekki að narta í hælana á Stjörnumönnum.

King Rochford var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 9 fráköst, Nikolas Tomsick skoraði 16, Halldór Hermannsson 13, Ragnar Örn Bragason og Davíð Arnar Ágústsson 6, Styrmir Snær Þrastarson 5, Emil Karel Einarsson og Benjamín Þorri Benjamínsson 2 og Magnús Breki Þórðason 1.

Þór er í 10. sæti deildarinnar með 2 stig en Stjarnan er í 3. sæti með 8 stig.

Fyrri greinÞrír Íslandsmeistarar í víðavangshlaupum
Næsta greinÍbúar í nágrenninu loki gluggum