Þór með sterkan útisigur en Hamar tapaði

Nigel Pruitt. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann frábæran sigur á Álftanesi á útivelli í úrvalsdeild karla í körfubolta í kvöld. Á sama tíma tapaði Hamar úti gegn Hetti.

Álftanes hafði frumkvæðið stærstan hluta fyrri hálfleiks gegn Þór og leiddi í leikhléi 53-50. Þórsarar voru hins vegar frábærir í 3. leikhluta sem þeir luku með 15-2 áhlaupi og breyttu stöðunni í 70-80. Eftir það var forskot Þórs nokkuð öruggt, Álftanes minnkaði muninn í 6 stig þegar tvær mínútur voru eftir en komust ekki nær og Þórsarar sigruðu 94-104.

Nigel Pruitt var stigahæstur Þórsara með 22 stig og 10 fráköst, Tómas Valur Þrastarson skoraði 20 stig og tók 7 fráköst, Jordan Semple og Darwin Davis skoruðu 16 stig og Davis sendi 6 stoðsendingar að auki. Jose Medina og Fotios Lampropoulos skoruðu báðir 11 stig og Lampropoulos tók 7 fráköst að auki.

Hattarmenn sterkir heima
Á Egilsstöðum var Hamar í heimsókn hjá Hetti. Gestirnir tóku strax frumkvæðið en það var ekki fyrr en í 2. leikhluta að þeir rifu sig frá Hamarsmönnum og staðan í hálfleik var orðin 48-33. Munurinn hélst svipaður framan af seinni hálfleik en í upphafi 4. leikhluta var staðan orðin 81-58 Hetti í vil og ljóst í hvað stefndi. Hamar klóraði í bakkann í lokin og úrslit leiksins urðu 93-80.

Dragos Diculescu var stigahæstur hjá Hamri með 25 stig og 8 fráköst, Franck Kamgain skoraði 24 stig og Björn Ásgeir Ásgeirsson 11.

Þórsarar eru í 4. sæti deildarinnar með 22 stig, eins og Keflavík og Njarðvík en Valur er á toppnum með 24 stig. Hamarsmenn eru áfram á botninum án stiga.

Fyrri greinSkellur að Hlíðarenda
Næsta greinDagdvöl aldraðra lokað í fjórar vikur í sumar