Þór mætir Snæfelli á útivelli

Davíð Arnar Ágústsson og félagar í Þór mæta Snæfelli á útivelli. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn mætir Snæfelli á útivelli í 32-liða úrslitum bikarkeppni karla í körfubolta en dregið var í dag.

Þórsarar spila sem kunnugt er í úrvalsdeildinni en Snæfell er í 1. deild.

Hamar í Hveragerði mun leika gegn B-liði Vestra á útivelli. Hamar spilar í 1. deild en Vestri b í 3. deildinni.

Á Selfossi verður 1. deildarslagur þegar Selfoss fær Sindra í heimsókn.

Geysir nýr styrktaraðili
Fyrir dráttinn var kynntur nýr samstarfsaðili vegna bikarkeppninnar sem er Geysir bílaleiga. Mun bikarinn bera nafnið Geysisbikarinn næstu tvö keppnistímabil.

Hannes S. Jónsson formaður KKÍ var mjög ánægður að fá Geysi til liðs við körfuboltafjölskylduna. „Við erum mjög ánægð að fá Geysi bílaleigu sem okkar samstarfsaðila. Geysir er öflugt og rótgróið fyrirtæki sem þekkir vel til körfuboltans á Íslandi. Það verður spennandi að starfa með þeim á næstu árum að efla körfuboltann og bikarkeppnina okkar.“

Skráning í Geysisbikarinn var ágæt í ár en 29 lið eru skráð í karlakeppnina og 15 lið í kvennakeppnina. Fóru öll kvennaliðin beint í 16 liða úrslit. Í dag var dregið í 32-liða úrslit karla og var dregið í 13 viðureignir og þar af leiðandi sátu þrjú lið hjá. Þau 29 lið sem voru skráð til keppni í dag koma frá 25 félögum úr 19 sveitarfélögum. Fjögur B lið voru í pottinum.

Fyrri grein„Vildum gera eitthvað öðruvísi“
Næsta greinGuðmundur stóð sig vel í Brighton