Þór jafnaði – Rochford magnaður

Kinu Rochford sækir að körfu KR í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn vann frábæran sigur á KR í kvöld í troðfullu íþróttahúsinu í Þorlákshöfn í öðrum leik liðanna í undanúrslitum Íslandsmóts karla í körfubolta, 102-90. Staðan í einvíginu er 1-1.

KR byrjaði betur í leiknum og leiddi 19-26 eftir 1. leikhluta en Þórsarar svöruðu vel fyrir sig í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 58-40. Seinni hálfleikur var jafn og spennandi en Þórsarar höfðu frumkvæðið og KR náði aðeins að minnka muninn minnst í sex stig, 77-71, snemma í 4. leikhluta.

Kinu Rochford var frábær í liði Þórs í kvöld, einu frákasti frá þrefaldri tvennu en framlagseinkunn hans var hvorki meira né minna en 50. Hann skoraði 29 stig, tók 17 fráköst og sendi 9 stoðsendingar.

Liðin mætast í leik 3 í KR-heimilinu á laugardagskvöld kl. 20:00.

Tölfræði Þórs: Kinu Rochford 29/17 fráköst/9 stoðsendingar, Jaka Brodnik 23/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 17/5 fráköst, Nikolas Tomsick 15/9 stoðsendingar, Ragnar Örn Bragason 11, Davíð Arnar Ágústsson 4, Emil Karel Einarsson 3.

Fyrri greinHafa náð að kortleggja svæðið að mestu leiti
Næsta grein„Það langar alla að slást aðeins“