Þór gaf eftir í lokin

Emil Karel Einarsson skoraði 17 stig og tók 4 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Þór Þorlákshöfn tapaði fyrsta leiknum í einvíginu gegn KR í undanúrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í KR-heimilinu í kvöld, 99-91.
KR-ingar voru sterkari í fyrri hálfleik og leiddu 57-48 í leikhléi. Þórsarar svöruðu vel fyrir sig í 3. leikhluta, skoruðu síðustu níu stigin í leikhlutanum og komust yfir, 74-77.
Fjórði leikhluti var jafn og spennandi framan af en á lokakaflanum fór allt í baklás hjá Þórsurum sem skoruðu aðeins tvö stig á síðustu fimm mínútum leiksins. KR-ingar sigu framúr og sigruðu að lokum með átta stiga mun.

Kinu Rochford var bestur í liði Þórs í kvöld, skoraði 26 stig og Emil Karel Einarsson og Halldór Garðar Hermannsson voru sömuleiðis öflugir.

Næsti leikur liðanna er á þriðjudagskvöld í Þorlákshöfn. Það lið sem fyrr vinnur þrjá leiki mun leika um Íslandsmeistaratitilinn gegn Stjörnunni eða ÍR.

Tölfræði Þórs: Kinu Rochford 26/7 fráköst/5 stoðsendingar, Nikolas Tomsick 18/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 17/7 fráköst, Jaka Brodnik 13/5 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 13/8 fráköst/6 stoðsendingar, Davíð Arnar Ágústsson 4.
Fyrri grein„Geggjuð reynsla fyrir okkur“
Næsta greinHamarsmenn flugu í undanúrslitin