Þór gaf eftir í blálokin

Vonir Þorlákshafnar-Þórsara um sæti í úrslitakeppni Domino’s deildar karla í körfubolta dvínuðu nokkuð í kvöld þegar liðið tapaði 90-85 gegn ÍR á útivelli.

ÍR-ingar byrjuðu betur í leiknum en Þórsarar svöruðu fyrir sig í 2. leikhluta og staðan var 39-39 í leikhléi. Þórsarar mættu vel stemmdir inn í seinni hálfleikinn og höfðu frumkvæðið langt inn í 4. leikhluta. Þá fór sóknarleikurinn að hiksta og Þórsarar klikkuðu meðal annars á átta af fjórtán vítaskotum sem þeir fengu á lokakaflanum.

ÍR komst yfir, 81-80, þegar tæp mínúta var eftir af leiknum og heimamenn gáfu þeim grænu engin færi á sér eftir það og kláruðu leikinn sterkt.

Þórsarar þurfa að halda vel á spöðunum í síðustu þremur umferðunum ætli þeir sér áttunda sætið og þar með sæti í úrslitakeppni deildarinnar. Þór hefur 14 stig í 9. sæti og á eftir að mæta Tindastóli, Keflavík og Njarðvík. Þór þarf að sigra í að minnsta kosti tveimur þessara leikja og treysta á hagstæð úrslit hjá Grindvíkingum sem eru núna í 8. sætinu með 16 stig.

Tölfræði Þórs: Jerome Frink 27/13 fráköst, Marko Bakovic 17/7 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 14/5 fráköst/8 stoðsendingar, Dino Butorac 12/4 fráköst/6 stoðsendingar, Emil Karel Einarsson 10, Ragnar Örn Bragason 3, Styrmir Snær Þrastarson 2, Sebastian Eneo Mignani 0, Davíð Arnar Ágústsson 0.

Fyrri greinVara við snjóflóðahættu í Ingólfsfjalli
Næsta greinSamvera til styrktar Hlöðveri og fjölskyldu