Þór áfram í bikarnum – Selfoss úr leik

Kristijan Vladovic sækir að körfu Tindastóls í kvöld en Gerel Simmons er til varnar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þórsarar frá Þorlákshöfn eru komnir í 16-liða úrslit bikarkeppni karla í körfubolta eftir 67-71 sigur á Haukum á útivelli í kvöld. Á sama tíma tapaði Selfoss gegn Tindastóli.

Leikur Hauka og Þórs var jafn framan af en í 2. leikhluta tóku Haukar af skarið og leiddu 45-33 í hálfleik. Þórsarar voru sterkari í seinni hálfleiknum og náðu að komast yfir undir lok 3. leikhluta, 53-54. Fjórði leikhluti var spennandi en Þórsarar voru sterkari á lokasprettinum.

Marko Bakovic var bestur í liði Þórs, skoraði 20 stig og tók 14 fráköst. Cino Butorac skoraði 18 stig og Halldór Garðar Hermannsson 16.

Á Selfossi tók 1. deildarlið Selfoss á móti lærisveinum Baldurs Þórs Ragnarssonar í úrvalsdeildarliði Tindastóls. Selfyssingar leiddu eftir 1. leikhluta, 18-15, en Tindastóll gerði áhlaup í 2. leikhluta og staðan var 34-46 í hálfleik. Gestirnir höfðu nokkuð örugg tök á seinni hálfleiknum og sigruðu að lokum 68-83.

Christian Cunningham átti stórleik fyrir Selfoss, skoraði 17 stig og tók 20 fráköst. Kristijan Vladovic var stigahæstur með 20 stig og Maciek Klimaszewski skoraði 10. 

Fyrri greinHarður árekstur á Suðurlandsvegi
Næsta greinDramatískur sigur Selfyssinga