Thomas með 51 stig í frábærum sigri

Aniya Thomas. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar/Þór vann frábæran sigur á Aþenu og náði sér í mikilvæg stig í 1. deild kvenna í körfubolta í Þorlákshöfn í dag.

Gestirnir byrjuðu betur í leiknum en Hamar/Þór komst yfir undir lok 1. leikhluta en staðan að honum loknum var 23-23. Heimakonur skoruðu átta fyrstu stigin í 2. leikhluta og héldu forystunni fram að hálfleik en staðan var 40-38 í leikhléinu.

Þriðji leikhluti var í járnum og munurinn á liðunum ekki mikill þó að Hamar/Þór hefði frumkvæðið. Þær náðu góðum kafla undir lokin og höfðu tíu stiga forystu þegar síðasti fjórðungurinn hófst, 62-52. Aþena gafst ekki upp og þegar fjórar mínútur voru eftir af leiknum höfðu þær jafnað 73-73. Lokakaflinn var æsispennandi en heimakonur voru komnar í bónus og Aniya Thomas kláraði leikinn af öryggi á vítalínunni og tryggði Hamri/Þór 81-79.

Thomas var með risa framlag fyrir Hamar/Þór, skoraði 51 stig og stal 8 boltum. Hildur Gunnsteinsdóttir skoraði 10 stig, Kristrún Ríkey Ólafsdóttir 7 og tók 11 fráköst, Emma Hrönn Hákonardóttir skoraði 5 stig, tók 8 fráköst og sendi 5 stoðsendingar, Jóhanna Ágústsdóttir skoraði 5 stig og Valdís Una Guðmundsdóttir 3.

Hamar/Þór lyfti sér upp fyrir Aþenu með sigrinum og er í 2. sæti deildarinnar með 6 stig.

Fyrri greinÍbúakönnun landshlutanna farin af stað
Næsta greinMetfjöldi gesta í Hveragarðinum