Þjálfaraskipti hjá Selfyssingum – Þórir tekur við

Þórir Ólafsson. Ljósmynd/Selfoss

Þórir Ólafsson hefur verið ráðinn þjálfari karlaliðs Selfoss í handbolta en Halldór Jóhann Sigfússon er hættur hjá Selfyssingum og er að taka við sem annar aðalþjálfari Tvis Holstebro í dönsku úrvalsdeildinni.

Þórir er Selfyssingur í húð og hár og hlaut sitt handboltalega uppeldi á Selfossi. Síðan lék hann með Haukum, Lübbecke í Þýskalandi og stórliði Kielce í Póllandi.

Eftir stutta millilendingu hjá Stjörnunni í Garðabæ kom Þórir aftur inn í starfið á Selfossi sumarið 2015. Hann hefur síðan þá verið í ýmsum hlutverkum; sem leikmaður, aðstoðarþjálfari bæði hjá meistaraflokki karla og kvenna, þjálfari í yngri flokkum og U-liðum.

Þórir á að baki 112 landsleiki fyrir Íslands hönd og býr yfir mikilli reynslu sem mun eflaust nýtast Selfyssingum vel, en hann hefur unnið með mörgum frábærum þjálfurum í gegnum tíðina.

Í tilkynningu frá handknattleiksdeild Selfoss er Halldóri þakkað fyrir vel unnin störf og eins og alltaf þá fagnar félagið því þegar leikmenn og þjálfarar þess fá tækifæri á alþjóðavettvangi.

Fyrri greinEinvígis aldarinnar minnst í Kötlusetrinu
Næsta greinTveir alvarlega slasaðir eftir bílveltu á Meðallandsvegi