„Þetta var þvílíkur heiður“

Haukur viðar og Jean Todt við Hekluna á akstursíþróttasvæðinu í Hafnarfirði. Ljósmynd/Team #16

Haukur Viðar Einarsson, torfæruökumaður frá Norður-Hvoli í Mýrdal, fékk óvænt símtal fyrir tveimur dögum síðan um að sýna engum öðrum en Jean Todt torfærubílinn Heklu í aksjón.

Todt er forseti FIA, Alþjóða akstursíþróttasambandsins, og fyrrum liðstjóri Ferrari formúluliðsins, svo eitthvað sé nefnt.

Haukur greinir frá þessu í færslu á Facebooksíðu Team #16 og segir að liðið hafi ekki verið lengi að segja já við þessari beiðni. Með í för voru fulltrúar AB varahluta og Borg & Beck.

„Þetta var þvílíkur heiður. Það sem einkenndi áhorfendurna var kjálkinn niðrí mold, undrunarsvipir og allir algjörlega heillaðir uppúr skónum. Þessi dagur var magnaður. Þá er Team #16 búið að keyra bæði fyrir Lewis Hamilton og Jean Todt, en Hamilton fékk meira að segja að taka í Hekluna,“ segir í færslunni.

Sambýliskona Todt er leikkonan Michelle Yeoh en hún er stödd hér á landi þessa dagana við upptökur á þáttaröðinni The Witcher, sem meðal annars er tekin upp á Suðurlandi.

Fyrri greinRekstrarreynsla frambjóðenda
Næsta greinGuðlaugur vann Pétursbikarinn