„Þetta var gaman í kvöld“

Guðmundur Hólmar skoraði níu mörk fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann frábæran sigur á Haukum í Olísdeild karla í handbolta í kvöld þegar keppni í deildinni hófst aftur eftir jóla- og heimsmeistaramótsfrí. Eftir rafmagnaðan lokakafla fögnuðu Selfyssingar 31-28 sigri.

„Þetta var gam­an í kvöld. Það var allt öðru­vísi takt­ur í vörn­inni í seinni hálfleik, taland­inn var betri og meira líf. Það var góður liðsandi og liðsheild sem skilaði þessu og menn voru já­kvæðir,“ sagði Þórir Ólafsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Sjö marka sveifla í seinni hálfleik
Það blés ekki byrlega í fyrri hálfleik hjá þeim vínrauðu. Haukar gerðu fljótlega 5-1 áhlaup og Selfoss var í eltingarleik fram að leikhléi, 15-19.

Það var allt annar bragur á Selfyssingum í seinni hálfleik. Vörnin frábær og markvarslan enn betri. Selfoss jafnaði 22-22 þegar tíu mínútur voru liðnar og liðinu virtist líða vel í öllum sínum aðgerðum, enda dyggilega studdir á heimavelli í Set-höllinni.

Selfyssingar héldu Haukum í níu mörkum í seinni hálfleiknum og voru skrefinu á undan síðustu tuttugu mínúturnar. Skrefin stækkuðu svo enn frekar í lokin en Selfoss skoraði síðustu þrjú mörk leiksins.

Framlag úr öllum áttum
Guðmundur Hólmar Helgason var frábær hjá Selfyssingum í kvöld, skoraði 9 mörk, sendi 3 stoðsendingar og var sterkur í vörninni. Guðjón Baldur Ómarsson átti stórleik með 8 mörk úr 9 skotum, Ísak Gústafsson skoraði 5 og sendi 5 stoðsendingar, Einar Sverrisson skoraði 3 og þeir Sölvi Svavarsson, Ragnar Jóhannsson, Atli Ævar Ingólfsson, Richard Sæþór Sigurðsson, Elvar Elí Hallgrímsson, Hannes Höskuldsson og Sverrir Pálsson skoruðu allir 1 mark en Sverrir var firnasterkur í vörninni með 10 löglegar stöðvanir.

Fyrir aftan Selfossvörnina stóð Vilius Rasimas sem varði 20/1 skot og var með 41% markvörslu.

Suðurlandsslagur í næstu umferð
Með sigrinum lyftu Selfyssingar sér upp í 6. sætið og þeir mæta næst ÍBV í Suðurlandsslag í Vestmannaeyjum næstkomandi laugardag.

Fyrri greinÖruggur sigur í botnslagnum
Næsta greinAppelsínugul viðvörun: Ekkert ferðaveður í fyrramálið