„Þetta var frábær liðssigur“

Brenna Lovera skoraði mark Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss vann öruggan 3-0 sigur á Keflavík í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu í kvöld, en liðin mættust í Keflavík.

„Við erum að spila á mjög erfiðum útivelli og erum ótrúlega lukkuleg með þennan sigur á móti mjög góðu liði. Það eru ekki mörg lið að koma hingað í sumar til þess að taka þrjú stig, og hvað þá vinna þrjú núll. Þetta var frábær liðssigur,“ sagði Alfreð Elías Jóhannsson, þjálfari Selfoss, eftir leik.

„Við þekkjum styrkleika Keflavíkur og náðum að loka vel á þá. Við sköpuðum okkur mörg hálffæri og skoruðum þrjú mörk. Við æfðum í fyrsta skipti á grasi í 20 mínútur í gær þannig að þetta er í annað skiptið í sumar sem við förum á gras. Þannig að ég er mjög ánægður. Það er stutt í næsta leik, erfitt prógramm í upphafi en við tökum vel á því á æfingum og verðum klár á Akureyri á þriðjudaginn.“

Hólmfríður kom að öllum mörkum Selfoss
Fyrri hálfleikurinn var í jafnvægi, bæði lið áttu góðar sóknir en Selfoss fékk ívið betri færi. Þeim tókst þó ekki að brjóta ísinn fyrr en á 45. mínútu að Brenna Lovera negldi boltanum upp í þaknetið af stuttu færi eftir frábæran undirbúning Hólmfríðar Magnúsdóttur. Nokkrum sekúndum síðar var flautað til leikhlés.

Selfyssingar lágu til baka í seinni hálfleik og vörðust skipulega. Keflvíkingar fengu engin færi en á 65. mínútu dró til tíðinda þegar Hólmfríður var felld í teignum og vítaspyrna dæmd. Lovera fór á punktinn og skoraði af miklu öryggi. Tíu mínútum fyrir leikslok slökkti Hólmfríður svo endanlega vonarneistann hjá Keflvíkingum þegar hún sýndi kunnugleg tilþrif fyrir utan vítateig Keflavíkur og lét vaða að marki, 3-0.

Það er þétt spilað í upphafi móts en næsti leikur Selfoss er á Akureyri á þriðjudaginn, gegn Þór/KA.

Fyrri grein„Sjálfbærni er ekki einstaklingsverkefni“
Næsta greinViðurkenning fyrir nafn á nýjum grunnskóla