„Þetta var einfalt fyrir mér“

Það var tekið vel á móti Jóni Daða í miðbæ Selfoss í dag. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Knattspyrnumaðurinn Jón Daði Böðvarsson er genginn í raðir Selfoss á nýjan leik en hann undirritaði samning við knattspyrnudeild Selfoss í morgun sem gildir út tímabil 2027.

Jón Daði var kynntur til leiks á glæsilegum og fjölsóttum blaðamannafundi á MAR Seafood í miðbæ Selfoss í hádeginu.

„Þetta var einfalt fyrir mér, ég var á Selfossi frá sjö ára aldri til tvítugs og tilhugsunin var alltaf hjá mér að koma aftur heim og enda ferilinn þar. Ég var í viðræðum við fleiri félög en með fullri virðingu fyrir þeim þá sat það ekki alveg rétt í mér. Ég er spenntur fyrir komandi verkefnum með Selfossi, auðvitað verða þau krefjandi eins og öll önnur og ég hlakka mikið til,“ sagði Jón Daði í samtali við sunnlenska.is eftir undirritun samningsins.

„Ég hugsaði að ef ég væri að fara að spila á Íslandi aftur þá yrði það alltaf með Selfossi, sama hvort það yrði í 1. deildinni, 2. deildinni eða Bestu deildinni. Auðvitað viljum við ekki að liðið falli en ég er að gera langtímasamning og ætla að vera hérna. Á einhverjum tímapunkti mun ég síðan hætta í fótbolta og þá vil ég halda áfram að hjálpa félaginu. Selfoss er stækkandi samfélag og hefur alltaf verið gott íþróttasamfélag, þannig að ég vil taka þátt í þessu verkefni og reyna að lyfta þessu aðeins með jákvæðum markmiðum og háum markmiðum því ég tel að við eigum innviðina og aðstæður til þess til langs tíma,“ bætti hann við.

Selfoss er í bullandi botnbaráttu í 1. deildinni en það er engan bilbug að finna á Jóni Daða sem er spenntur fyrir komandi verkefni. Hann er búinn að fylgjast vel með Selfossliðinu í sumar.

„Við erum með ungt lið og það var stórt skref að fara upp úr 2. deildinni í 1. deildina. En þetta er spennandi lið, ungir strákar sem eru að fá stórt tækifæri og mínútur og eru að bæta sig. Hvernig sem þetta tímabil fer þá eru jákvæðir tímar framundan í fótboltanum á Selfossi og ég er gífurlega spenntur fyrir þessu,“ sagði Jón Daði að lokum.

Jón Daði handsalar samninginn við Guðjón Bjarna Hálfdánarson, formann meistaraflokksráðs karla og Tómas Þóroddsson, sem situr í meistaraflokksráðinu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Atvinnumaður í Noregi, Þýskalandi og á Englandi
Jón þarf ekki að kynna fyrir neinum en hann hefur leikið sem atvinnumaður í knattspyrnu frá árinu 2012 þegar hann var keyptur til norska liðsins Viking FK frá Selfossi. Árið 2016 gekk hann í raðir þýska félagsins Kaiserslautern áður en hann fluttist til Englands þar sem hann hefur verið frá árinu 2016. Þar lék hann með Wolves, Reading, Milwall, Bolton, Wrexham og nú síðast Burton Albion.

Jón Daði á að baki glæstan landsliðsferil en hann hefur leikið 64 leiki fyrir A-landslið Íslands auk fjölda leikja fyrir yngri landsliðin. Hann skoraði eftirminnilega ansi mikilvægt mark fyrir Ísland á Stade de France gegn Austurríki á EM 2016 í 2-1 sigri þegar liðið tryggði sér sæti í 16-liða úrslitum mótsins.

Til í slaginn gegn Grindavík 18. júlí
Jón er Selfyssingur og lék upp alla yngri flokka með félaginu. Hann steig sín fyrstu skref með meistaraflokknum sumarið 2008. Hann lék síðan stórt hlutverk í liðinu tímabilið 2010 þegar liðið spilaði í fyrsta skipti í efstu deild, þá Pepsi-deild karla. Sömu sögu var að segja sumarið 2012 þegar liðið spilaði einnig í efstu deild.

Hann fær leikheimild með Selfoss þann 17. júlí þegar félagaskiptaglugginn opnar en daginn eftir á Selfoss útileik gegn Grindavík.

Jón Daði í landsleik gegn Frökkum á Laugardalsvellinum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl
Fyrri greinJón er kominn heim
Næsta greinBráðaviðbragð skipulagt í Öræfum til framtíðar