„Þetta er svo mikil bilun“

Geir Evert Grímsson varð í 2. sæti á seinni keppnisdeginum. Ljósmynd/Heiða Björg

Tíu sérútbúnir torfærubílar frá Íslandi kepptu í torfæru í Bikinibotnum við Dyersburg í Tennessee í Bandaríkjunum um síðustu helgi. Þetta er þriðja árið í röð sem Íslendingarnir ferðast til keppni í Ameríku.

„Þetta heppnaðist alveg óskaplega vel og það var mikil ánægja og gleði bæði hjá okkur Íslendingunum og líka hjá heimamönnum. Þetta er svo mikil bilun þarna og við fáum alltaf jafn góðar móttökur,“ sagði Bessi Theodórsson, sérlegur torfærukynnir, í samtali við sunnlenska.is.

„Það gera sér ekki allir grein fyrir því hvað þetta er stórt dæmi. Þarna eru 200 manns bara á vegum íslensku keppnisliðanna og það má skjóta á að um hundrað manns til viðbótar hafi ferðast yfir hafið til þess að koma og horfa á. Þannig að það hafa verið 300 Íslendingar á svæðinu og sjálfsagt meirihluti þeirra Sunnlendingar,“ sagði Bessi ennfremur og bætir við að stefnan sé sett á fjórðu keppnina í Bandaríkjunum að ári.

„Vonandi mætum við aftur að ári. Þetta er eitthvað sem allir ættu að upplifa. Ég veit að maður segir það um allt sem maður upplifir en þetta er frá mínum dýpstu hjartarótum. Upplifunin er engri lík.“

Geir Evert í toppbaráttunni
Fyrri daginn sigraði Vestmannaeyingurinn Magnús Sigurðsson á Kubbnum með 1988 stig en Sunnlendingarnir voru ekki í toppbaráttunni ef Geir Evert Grímsson er frátalinn en hann varð í 4. sæti með 1818 stig. Ásmundur Ingjaldsson varð sjöundi, Haukur Viðar Einarsson níundi og Elías Guðmundsson tíundi.

Á seinni deginum hresstust okkar menn nokkuð. Atli Jamil Ásgeirsson sigraði með 1788 stig, Geir Evert varð í 2. sæti með 1600 stig og Haukur Viðar rétt á eftir honum með 1595 stig. Elías varð í fimmta sæti og Ásmundur tíundi.

Í samanlagðri stigakeppni sigraði Magnús Sigurðsson með 3452 stig aðeins fimm stigum á undan Atla Jamil. Geir Evert varð í 4. sæti samanlagt, Haukur sjötti, Elías níundi og Ásmundur tíundi.

Snorri Þór Árnason tók einnig þátt í keppni helgarinnar á amerískum rock bouncer bíl en það kalla heimamenn torfærugrindurnar sem þeir keppa á.

Auk sunnlensku keppendanna var fjöldi starfsmanna frá Flugbjörgunarsveitinni á Hellu á keppninni auk þess sem margir áhorfendur ferðuðust yfir hafið til þess að verða vitni að skemmtuninni.

Hér að neðan eru myndir af sunnlensku torfærubílunum en Heiða Björg Jónasdóttir tók myndirnar. Þar fyrir neðan eru myndbönd frá hvorum keppnisdegi fyrir sig en þau eru úr smiðju Jakobs Cecil Hafsteinssonar.


Ásmundur Ingjaldsson. Ljósmynd/Heiða Björg


Elías Guðmundsson. Ljósmynd/Heiða Björg


Haukur Viðar Einarsson. Ljósmynd/Heiða Björg


Magnús Sigurðsson sigraði í samanlagðri stigakeppni. Ljósmynd/Heiða Björg


Bessi Theodórsson, sérlegur kynnir keppninnar. Ljósmynd/Úr einkasafni

 

Fyrri greinSvikarinn – útgáfuhóf í Eymundsson
Næsta greinTæknisvið Ölfuss róbótavætt