„Þetta er bara ömurlegt“

sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í handbolta er fallið niður í Grill-66 deildina eftir 27-30 tap gegn ÍR í oddaleik í umspili um sæti í Olísdeildinni í Set-höllinni á Selfossi í kvöld.

„Þetta er bara ömurlegt, þegar maður er svikinn um eitthvað sem maður ætlaði sér þá hefur maður fátt að segja,“ sagði Eyþór Lárusson, þjálfari Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Það er nokkuð ljóst að við komum ekki rétt innstilltar í leikinn og það er eitthvað sem ég sem þjálfari liðsins verð að taka ábyrgð á. Hausinn á leikmönnum er ekki klár þegar flautað er til leiks og við gröfum okkur djúpa holu. Það var engin pressa á ÍR og við ekki í neinni stöðu til að vanmeta þær en svona er boltinn stundum. Við komum frábærlega til baka og jöfnum í seinni hálfleik en í framhaldinu vantar klókindi og við fengum aldrei þetta lykilaugnablik til þess að koma þessu okkar megin á síðustu tíu mínútunum,“ bætti Eyþór við.

Selfyssingar blésu til sóknar á leikmannamarkaðnum í vor, fyrir næstu leiktíð og hafa meðal annars fengið til liðs við sig landsliðskonur og margir spyrja nú hvernig framhaldið verður hjá liðinu.

„Landslagið í handboltanum er þannig að það er erfitt að komast upp í úrvalsdeildina. Við ákváðum að setja markið hátt og gerðum okkur fulla grein fyrir því að það væri ekkert komið og að umspilið yrði mjög erfitt. Ef við hefðum beðið með að sækja leikmenn þá hefðu þeir samið annarsstaðar. Ég get ekki svarað því hvernig framhaldið verður, eða hvernig samningar þessara leikmanna eru, þú verður að spyrja stjórnina að því,“ sagði Eyþór að lokum.

Slæm byrjun varð Selfossi að falli
Selfoss varð í 7. sæti Olísdeildarinnar í vetur á meðan ÍR varð í 2. sæti Grill-66 deildarinnar. ÍR vann fyrstu tvo leikina í einvíginu en Selfoss knúði fram oddaleik með tveimur öruggum sigrum í röð. Í kvöld var allt annað uppi á teningnum, Selfoss byrjaði illa og ÍR náði góðu forskoti sem þær héldu mest allan leikinn. Staðan í hálfleik var 14-18.

Í seinni hálfleik var allt annað að sjá til Selfyssinga sem jöfnuðu 23-23 þegar korter var eftir. Lokakafli liðsins var hins vegar allt annað en góður og ÍR gekk á lagið og landaði öruggum sigri.

Arna Kristín markahæst
Arna Kristín Einarsdóttir var markahæst Selfyssinga með 10/2 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 7, Tinna Sigurrós Traustadóttir 4, Roberta Stropé 3 í sínum síðasta leik fyrir félagið og þær Karen Helga Díönudóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir skoruðu allar 1 mark. Cornelia Hermansson varði 7/1 skot í marki Selfoss og var með 24% markvörslu.

Fyrri greinFyrsta stig Selfoss kom gegn meisturunum
Næsta greinRisa Euro-partý á Selfossi: Sviðið breytist í Gleðibankann