„Þetta er auðvitað áfall“

Íslandsmeistarar Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Selfoss fá ekki keppnisrétt í Meistaradeild Evrópu í handbolta á næstu leiktíð eins og félagið sóttist eftir.

Selfyssingar fengu tölvupóst þessa efnis í morgun en ekki er útlistað á hvaða forsendum meisturunum er hafnað. Í tilkynningu frá EHF segir að félagið hafi ekki staðist ákveðnar lágmarkskröfur til þátttöku, en ekki kemur fram hverjar þær eru.

„Við erum auðvitað hundsvekkt yfir þessari óskiljanlegu afgreiðslu EHF og höfum engar útskýringar fengið. Ekkert samband var haft við okkur vegna þessa en við fengum bara fréttatilkynninguna senda í fjöldapósti en við vitum ekki annað en við höfum uppfyllt allar kröfur EHF,“ sagði Þórir Haraldsson, formaður handknattleiksdeildarinnar í samtali við sunnlenska.is.

„Leikmenn, sjálfboðaliðar og stuðningsmenn voru spenntir fyrir verkefninu og stuðningsaðilar, svo sem Sveitarfélagið Árborg eru tilbúin með okkur. Þetta er auðvitað áfall, ekki bara fyrir okkur Selfyssinga heldur alla handboltahreyfinguna í landinu ef EHF útilokar Íslandsmeistarana frá Meistaradeild Evrópu á einhverjum óljósum forsendum,“ bætir Þórir við.

Selfoss mun því líklega taka þátt í EHF-bikarnum næsta vetur, eins og liðið gerði á síðustu leiktíð og mögulega koma inn í þá keppni í 2. umferð.

„HSÍ er auðvitað að vinna í málinu en ef svona fer, mun Selfoss taka þátt í EHF keppninni í haust af fullum krafti og þá getum við spilað í Hleðsluhöllinni með okkar tryggu stuðningsmönnum,“ sagði Þórir að lokum.

Fyrri greinLjósleiðaravæðing í dreifbýli Árborgar að hefjast
Næsta greinLágmarkskrafa um 2.500 sæti fyrir áhorfendur