Thelma Björk til liðs við Selfoss

Knattspyrnudeild Selfoss hefur samið við varnarmanninn Thelmu Björk Einarsdóttur og mun hún spila með liðinu í Pepsi-deildinni í sumar.

Thelma er 23 ára gömul, uppalin hjá Val og hefur leikið 79 leiki í efstu deild og bikar fyrir félagið en hún hefur unnið alla titla á Íslandi fyrir uppeldisfélag sitt og tekið þátt í Evrópukeppnum.

Undanfarin ár hefur hún verið í námi í Bandaríkjunum og leikið með liði Berkeley háskólans í bandaríska háskólaboltanum yfir vetrartímann. Síðastliðið sumar sleit Thelma krossband en hún er óðum að jafna sig á meiðslunum og sér fram á að ná sínu allra besta formi á Selfossi í sumar.

Thelma hefur leikið níu A-landsleiki auk tólf landsleikja fyrir yngri lið Íslands.

Það er ljóst að Thelma kemur með mikla reynslu inn í ungt lið Selfoss og mun hún styrkja liðið til muna varnarlega en hún hefur verið með betri leikmönnum Pepsi-deildarinnar undanfarin ár. Hún er örfættur vinstri bakvörður og getur auðveldlega hlaupið upp kantinn til þess að taka þátt í sóknarleiknum.