Þær vínrauðu slegnar út af laginu

Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Tinna Soffía Traustadóttir hafa engin vettlingatök í vörninni hjá Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfyssingar áttu erfitt uppdráttar þegar topplið Vals í Olísdeild kvenna í handbolta kom í heimsókn í Set-höllina á Selfossi í kvöld.

Þær vínrauðu voru slegnar út af laginu strax í upphafi því Valur leiddi allan tímann, þær skoruðu fyrstu þrjú mörkin í leiknum og náðu fljótlega fimm marka forskoti. Staðan í hálfleik var 10-15.

Gestirnir höfðu öruggt forskot allan seinni hálfleikinn og ekki batnaði staðan hjá Selfyssingum þegar Roberta Stropé fór meidd af velli í upphafi seinni hálfleiks og munaði um minna í vörninni. Valur gekk á lagið og vann að lokum fjórtán marka sigur, 19-33.

Roberta Stropé og Tinna Soffía Traustadóttir voru markahæstar Selfyssinga með 5 mörk, Katla María Magnúsdóttir skoraði 3/2 mörk og sendi fjórar stoðsendingar, Arna Kristín Einarsdóttir skoraði 2 mörk og þær Rakel Guðjónsdóttir, Hulda Hrönn Bragadóttir, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir og Katla Björg Ómarsdóttir skoruðu allar 1 mark.

Cornelia Hermansson varði 13 skot í marki Selfoss og var með 30% markvörslu.

Staðan í deildinni er þannig að Selfoss er í 7. sæti með 6 stig en Valur er í toppsætinu með 28 stig.

Fyrri greinAftur lokað við Stóru-Laxá
Næsta greinHamar vann toppslaginn