„Það verða mikil læti“

Selfyssingar fjölmenntu í stúkuna 9. mars 2018 og engin ástæða til annars en að ætla að stemningin verði jafnvel betri í kvöld. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss og KA mætast í undanúrslitum bikarkeppninnar í handbolta á Ásvöllum í Hafnarfirði klukkan 20:15 í kvöld. Sigurliðið fer í úrslitaleikinn kl. 16 á laugardag og mætir þar annað hvort FH eða Val.

„Ég held að þetta verði frábær viðburður fyrir leikmennina og alla í kringum leikinn. Það verða mikil læti og mjög skemmtilegt. Það er það sem ég er búinn að vera að bíða eftir. Ég er búinn að vera á Selfossi í 20 mánuði og ég hef ekki ennþá fengið fullt hús í Iðu,“ segir Halldór Jóhann Sigfússon, þjálfari Selfoss, í viðtali í nýjasta þætti Selfoss hlaðvarpsins.

„Ég hef komið hingað í algjöra geðveiki sem þjálfari FH og þá kynntist ég þessum almenna stuðningsmanni Selfossliðsins sem er auðvitað gríðarlega öflugur.“

Forréttindi að fá að spila þessa leiki
Bikarsaga Selfoss er ekki löng en liðið lék síðast í undanúrslitum árið 2018. Halldór Jóhann segir að þetta séu leikirnir sem handboltinn snúist um.

„Þetta er það sem maður elskar í þessu og fær mann til að vera áfram í þessu, það eru þessir stóru leikir og að eiga möguleika á að vinna titla. Og öll þessi spenna, maður er búinn að vera eins og krakki alla vikuna að undirbúa liðið. Þetta er gríðarleg innspýting fyrir leikmennina. Það eru algjör forréttindi að fá að spila þessa leiki. Ég segi: virtu það, vertu vel undirbúinn og njóttu þess.“

3. flokkur í beinni á RÚV2
Þriðji flokkur karla er einnig kominn í úrslit í bikarnum en þeir spila úrslitaleikinn gegn Fram klukkan 18 á föstudag. Fyrir þá sem ekki komast á leikinn má benda á að hann er í beinni útsendingu á RÚV2.

Smelltu hér til þess að hlusta á bikar-hlaðvarp Selfoss

Fyrri greinMennirnir fundust mjög kaldir
Næsta greinTíu Hamarsmenn tryggðu sér sigur