„Það var alvöru andi í þessu“

Patrekur Jóhannesson og Alexander Egan fagna. Mynd úr safni. Ljósmynd/Jóhannes Eiríksson

Selfoss vann frábæran sigur á FH í Olísdeild karla í handbolta í kvöld, 26-23, í Hleðsluhöllinni á Selfossi.

„Þetta var fínt í kvöld, við byrjuðum af miklum krafti með góðan stuðning frá áhorfendum enda var fáránlegur hávaði í húsinu í kvöld. Okkur leið eins og við ættum að vera með miklu meira forskot þegar við fórum inn í hálfleikinn og við hikstuðum aðeins í seinni. En við náðum að halda þeim frá okkur, þó að munurinn færi niður í tvö mörk,“ sagði Alexander Egan í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Sóknin hikstaði aðeins en við töluðum um að láta ekki vörnina skíta líka þó að það væri engin sókn í gangi. Það þarf að halda allavega öðru gangandi og vörnin var alveg frábær í kvöld. Það spiluðu allir vel í vörninni og það var alvöru andi í þessu í dag. Við erum búnir að finna smá gleði aftur eftir að hafa ströglað fyrir landsleikjahléið,“ bætti Alexander við en hann spilaði sinn 100. leik fyrir félagið í kvöld.

„Ég er ótrúlega stoltur og það er geggjað að ná hundrað leikjum fyrir uppeldisklúbbinn. Ég vissi ekkert af þessu en það voru allir að óska mér til hamingju eftir leik og þetta er mjög skemmtilegt.“

Vörnin var frábær
Grunnurinn að sigri Selfyssinga í kvöld var frábær varnarleikur, sérstaklega framan af leik þar sem munurinn varð mestur sex mörk. FH skoraði aðeins 8 mörk í fyrri hálfleik, 13-8 í leikhléi. Það var hins vegar úr karakter hjá Selfyssingum að um miðjan leikinn skoruðu þeir ekki mark á sautján mínútna kafla. En vörnin hélt og sigurinn var ekki í hættu.

Hergeir fær 10 í einkunn
Atli Ævar Ingólfsson var markahæstur Selfyssinga með 8 mörk og virkilega góðan leik. Hergeir Grímsson skoraði 4 mörk og var frábær í vörninni með frammistöðu upp á tíu. Elvar Örn Jónsson skoraði sömuleiðis 4 mörk, þar af tvö á lykilaugnablikum í seinni hálfleik. Haukur Þrastarson skoraði 3 mörk og sendi 7 stoðsendingar, Nökkvi Dan Elliðason skoraði 2 mörk með 100% skotnýtingu og 5 stoðsendingar, Alexander Már Egan skoraði sömuleiðis 2 mörk og Guðni Ingvarsson 1, en hann leysti Atla Ævar af í einni sókn í leiknum meðan Atli skipti um gauðrifna treyju.

Toppbaráttan í deildinni er í hnút þó að FH og Valur hafi bæði tapað stigum í kvöld. Haukar eru í toppsætinu með 27 stig en Selfoss í 2. sæti með 26 stig. Þar á eftir koma Valur með 25 stig og FH með 24.

 

 

Fyrri greinTokic með þrennu gegn KH
Næsta greinÖruggur sigur á toppliðinu