„Það langar alla að slást aðeins“

Máté Dalmay, þjálfari Hamars. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Hamar jafnaði 1-1 í einvíginu gegn Fjölni um sæti í úrvalsdeild karla í körfubolta þegar liðin mættust í leik tvö í Hveragerði í kvöld. Hamar sigraði 88-86.

„Þetta var bara alvöru úrslitakeppnisleikur og réðist á síðustu sekúndunni, eins og þetta á að vera. Við þurfum að mæta jafn grimmir í vörnina í næsta leik, eins og við vorum í kvöld. Vonandi verður línan líka þannig hjá dómurunum að menn fái aðeins að kítast án bolta og í fráköstum. Ekki svona eins og þetta sé einhver októberleikur. Ég held að við höfum pikkað upp fimm, sex villur í byrjun. Þetta er svo veikt, það langar alla að slást aðeins. Það eru stórir og sterkir strákar í þessum liðum, endalaust af snertingum. Við þurfum bara að vera ákafir í vörninni, þannig að þetta sé erfitt fyrir bæði lið allan tímann. Þannig á þetta að vera, ekki einhver 110-105 labbitúr eins og Fjölnir eru vanir,“ sagði Máté Dalmay, þjálfari Hamars, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

„Vörnin er lykillinn að því að klára þetta einvígi. Við erum stirðir í sókninni. Það er erfitt að skora og samt erum við að skora 90 stig í kvöld. Við þurfum að stilla okkur af í vörninni, ég held að Vilhjálmur Theodór hafi sett einhverja fimm þrista í kvöld. Hann er búinn að drepa okkur tvo leiki í röð og við þurfum að stoppa það,“ bætti Máté við.

Hamarsmenn sterkir á lokakaflanum
Leikurinn var jafn og spennandi allan tímann en staðan í leikhléi var 41-40, Hamri í vil. Það blés þó ekki byrlega hjá Hamarsmönnum í upphafi seinni hálfleiks og Fjölnir náði mest 11 stiga forskoti í 3. leikhluta, 51-62.

Hamar spilaði frábæra vörn á lokakaflanum og 4. leikhluti var hrikalega spennandi. Everage Richardson og Ragnar Ragnarsson settu niður stóra þrista og komu Hamri yfir, 81-79, þegar rúmar tvær mínútur voru eftir. Eftir mistök á báða bóga jafnaði Fjölnir 86-86 þegar 17 sekúndur voru eftir af leiknum en Máté Dalmay, þjálfari Hamars, tók þá leikhlé og teiknaði upp síðustu sóknina, sem gekk fullkomlega upp. Marko Milekic skoraði sigurkörfuna þegar 1,5 sekúndur voru eftir af leiknum og Richardson náði í kjölfarið að verja síðasta skot Fjölnismanna um leið og lokaflautan gall.

Rajic með gott framlag
Julian Rajic var sterkur í liði Hamars þó að hann hafi verið kærulaus þegar mikið var í húfi á lokakaflanum. Honum er fyrirgefið það með 22 stig og 10 fráköst, þar af 5 sóknarfráköst. Richardson kom næstur honum í stigaskorun með 21 stig.

Liðin mætast í leik þrjú á heimavelli Fjölnis á föstudagskvöld kl. 19:15.

Tölfræði Hamars: Julian Rajic 22/10 fráköst, Everage Lee Richardson 21/6 stoðsendingar, Ragnar Jósef Ragnarsson 15, Geir Elías Úlfur Helgason 9, Marko Milekic 6/10 fráköst/6 stoðsendingar, Kristófer Gíslason 5, Oddur Ólafsson 5, Florijan Jovanov 3/4 fráköst, Dovydas Strasunskas 2.

Fyrri greinÞór jafnaði – Rochford magnaður
Næsta greinSkilaði fundnu fé á lögreglustöðina