„Það er leikur í þessu ennþá“

Atli Ævar Ingólfsson og félagar mæta Haukum í 32-liða úrslitum og FH í 16-liða úrslitum ef allt gengur upp. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði með sex marka mun þegar liðið mætti HK Malmö í 2. umferð EHF-bikarsins í handbolta í Svíþjóð í dag, 33-27.

„Við gefum eftir varnarlega í seinni hálfleiknum. Þeir fara að koma á okkur á ferðinni og við verðum ekki eins árásargjarnir varnarlega, þannig að þeir fá auðveld mörk. Þeir eru erfiðir þarna margir að stoppa, miklir skrokkar og góðir handboltamenn. Við hefðum viljað halda aðeins betur varnarlega,“ sagði Grímur Hergeirsson, þjálfari Selfoss, í samtali við Selfoss TV eftir leik.

„Við lendum líka í smá basli með færin okkar í sókninni. Við erum að spila okkur í mjög góð færi en það er minna mál að laga nýtinguna heldur en það ef við værum ekki að fá nein færi. Það er leikur í þessu ennþá og við höfum sýnt það að við erum til alls vísir þegar sá gállinn er á okkur,“ sagði Grímur ennfremur.

Svart og hvítt í fyrri og seinni
Selfyssingar byrjuðu vel í leiknum og leiddu fram í miðjan fyrri hálfleikinn. Sölvi Ólafsson varði vel á upphafsmínútunum en færanýting Selfyssinga hefði mátt vera betri því mörg dauðafæri fóru í súginn. Staðan var 8-9 um miðjan fyrri hálfleik en þá kom slæmur kafli þar sem Malmö náði mest þriggja marka forskoti, 14-11. Selfyssingar bættu þá í aftur og náðu að jafna 16-16 en staðan var 17-17 í leikhléi. 

Það var allt annað að sjá til Selfyssinga í seinni hálfleik. Ekkert gekk upp, hvorki í vörn eða sókn á meðan Svíarnir spiluðu frábæra vörn þegar leið á seinni hálfleikinn og röðuðu inn mörkum. Munurinn varð mestur sjö mörk á lokakafla leiksins, 30-23, en Selfoss náði aðeins að rétta úr kútnum í lokin og Magnús Øder Einarsson lokaði leiknum á frábæru marki, 33-27.

Liðin mætast aftur í Hleðsluhöllinni á Selfossi næstkomandi laugardag kl. 18:00 og þar þurfa Selfyssingar að vinna með 6-7 mörkum til þess að komast í 3. umferðina þar sem mörg af stórliðum Evrópu bíða.

Haukur og Atli skoruðu mest – Markvarslan dræm
Haukur Þrastarson og Atli Ævar Ingólfsson voru markahæstir Selfyssinga með 6 mörk en Haukur skoraði tvö af vítalínunni. Magnús Øder skoraði 5 mörk, Árni Steinn Steinþórsson 4, Alexander Egan 3, Hergeir Grímsson 2 og Nökkvi Dan Elliðason 1.

Sölvi Ólafsson varði 8 skot í marki Selfoss og var með 32% markvörslu og Einar Baldvin Baldvinsson varði 5 og var með 23% markvörslu.

Fyrri greinÖrn Árnason stýrir þjóðsögunum í Hveragerði
Næsta greinUxahryggjavegur nær upp í Borgarfjörð