„Það er gaman að hafa gaman“

Ingi Rafn Ingibergsson. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss vann öruggan 3-0 sigur á Fjarðabyggð í 2. deild karla í knattspyrnu á Selfossvelli í dag.

„Það var sterkt hjá okkur að halda hreinu. Það var það sem vantaði í síðasta leik. Liðið lítur vel út, boltinn rúllaði vel og við vorum að skapa færi. Við vorum ekki að gefa mörg færi á okkur og það var jákvætt, helst að þeir fengju eitthvað uppúr föstum leikatriðum í fyrri hálfleik. Við tókum það fyrir í hálfleik og það hætti bara í seinni hálfleik,“ sagði Ingi Rafn Ingibergsson, einn markaskorara Selfoss, í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

Mark Inga Rafns var af dýrari gerðinni en hann braut ísinn með bakfallsspyrnu á 31. mínútu eftir frábæra sendingu frá Þorsteini Daníel Þorsteinssyni inn í teig.

„Þetta var bara af æfingasvæðinu. Ég tek hlaupið, Steini sér það, lyftir boltanum innfyrir, kassinn upp í loftið og bara ein leið að klára þetta. Þetta var gott mark og gott fyrir liðið að skora öðruvísi mark, ég fann það og menn stigu upp. Það er gaman að hafa gaman,“ sagði Ingi Rafn ennfremur.

Rólegheit í fyrri hálfleik
Leikurinn var rólegur framan af en Selfyssingar stýrðu ferðinni. Fjarðarbyggð átti þó fleiri skot á rammann og Stefán Þór Ágústsson, markvörður Selfoss, hafði meira að gera en Peric í marki Fjarðabyggðar. Stefán stóð sig vel, með Adam Örn Sveinbjörnsson og Þorstein Daníel öfluga fyrir framan sig. 

Ingi Rafn braut ísinn á 31. mínútu og á lokakafla fyrri hálfleiks fengu bæði lið hálffæri en staðan var 1-0 í hálfleik. Tomasz Luba fór meiddur af velli undir lok fyrri hálfleiks en Jökull Hermannsson tók stöðu hans og leysti hana vel.

Einstefna í seinni hálfleik
Selfossliðið mætti mjög öflugt inn í seinni hálfleikinn og gestirnir sáu vart til sólar. Nokkur mjög góð færi litu dagsins ljós á upphafsmínútunum og Hrvoje Tokic og Kenan Turudija hefðu báðir átt að bæta við mörkum áður en Turudija skoraði gott skallamark á 56. mínútu eftir baneitraða sendingu frá hægri frá Þór Llorens Þórðarsyni.

Á 62. mínútu fengu gestirnir skyndisókn þar sem Stefán Þór varði vel en annars voru þeir gulklæddu ekki áberandi í seinni hálfleik. 

Tokic og Turudija héldu áfram að vaða í færum en boltinn fór ekki inn fyrr en á 75. mínútu að Tokic slapp innfyrir og varnarmaður Fjarðabyggðar renndi sér fyrir boltann og varði með hendi – víti! Tokic skoraði af öryggi úr vítinu og tryggði Selfyssingum 3-0 sigur.

Lokakaflinn var tíðindalítill en leikurinn í dag er gott veganesti fyrir Selfyssinga inn í viðureignina gegn ÍR á útivelli næstkomandi föstudag.

Fyrri greinJúlíus Óli í Selfoss
Næsta greinGrýlupottahlaup 5/2019 – Úrslit