Terrance Motley til FSU

Karlalið FSu í körfubolta hefur fengið Bandaríkjamanninn Terrance Motley til liðs við sig fyrir átökin í 1. deildinni í vetur.

Motley er hann væntanlegur til landsins fyrir helgi og ekki seinna vænna því deildakeppnin hefst strax í næstu viku. Fyrsti leikur FSu er gegn ÍA í Iðu fimmtudaginn 6. október kl. 19:15.

Motley er öflugur leikmaður, 201 sm á hæð og líkamlega sterkur. Honum er ætlað það hlutverk að „fylla teiginn“ eins og sagt er á körfuboltamáli, taka fráköstin og jafnt að verjast sem skila stigum nálægt körfunni. Hann er samt fjölhæfur leikmaður sem á að geta spilað stöður 3, 4 og 5, með ágætt stökkskot utan teigs.

Motley er 25 ára gamall, fæddur 1991, og hefur þegar öðlast reynslu sem atvinnumaður en hann kemur nánast beint frá Ástralíu þar sem leiktímabilinu lauk seint í ágúst.

Í frétt á heimasíðu FSu segir að ekki þurfi að fjölyrða um það að félagið hafi töluverðar væntingar um að Motley eigi eftir að láta til sín taka og „draga vagninn“, ekki síst í upphafi móts á meðan reynslumestu leikmenn liðsins eru hægt og bítandi að ná sér af langvarandi meiðslum. Liðið er að öðru leyti skipað kornungum nýliðum sem þurfa sinn tíma til að fóta sig í stærri hlutverkum en þeir hafa áður leikið.