Tekið á því í nýjum sal

Það var líf og fjör í íþróttahúsinu Baulu á Selfossi í kvöld þegar nýr æfingasalur Taekwondodeildar Umf. Selfoss var tekinn í notkun.

Salurinn er á 2. hæð í Baulu og verður einnig nýttur fyrir danskennslu í Sunnulækjarskóla og fyrir yngstu iðkendur fimleikadeildar Umf. Selfoss. Salurinn hafði staðið fokheldur frá því Baula var tekin í notkun.

Master Sigursteinn Snorrason heimsótti Selfyssinga í dag og stjórnaði fyrstu æfingunni í salnum auk þess sem landsliðsmenn í sparring, sem er bardagahluti Taekwondo, mættu og léku listir sínar.

Mikil aukning hefur orðið í iðkendafjölda Taekwondodeildarinnar á síðustu mánuðum og hafði deildin sprengt utan af sér fyrra húsnæði sem hún deildi með júdódeildinni. Nú eru báðar deildirnar komnar í nýtt húsnæði en júdódeildin hefur leikfimisal Sandvíkurskóla til afnota.

Fyrri greinTvær bílveltur á Biskupstungabraut
Næsta greinTap í fyrsta leik ársins