Teitur til liðs við Flensburg

Teitur í búningi Flensburg. Ljósmynd/Flensburg

Handknattleiksmaðurinn Teitur Örn Einarsson frá Selfossi er gengin til liðs við þýska stórliðið Flensburg frá Kristianstad í Svíþjóð.

Teitur skrifaði undir samning við þýska liðið sem gildir út leiktíðina.

Teitur fór í læknisskoðun hjá Flensburg á sunnudag og æfði í fyrsta sinn með liðinu í morgun. Hann er kominn með leikheimild með þýska liðinu og gæti verið í leikmannahópi liðsins þegar það mætir ungverska liðinu Telekom Veszprem í meistaradeild Evrópu. Teitur mun leika í treyju númer 34 hjá Flensburg.

„Við erum að fá alvöru víking til okkar,“ segir Maik Machulla, yfirþjálfari hjá Flensburg, á heimasíðu félagsins. „Við áttum góðar viðræður við Kristianstad og Teit og hlutirnir gengu hratt fyrir sig. Teitur hefur góða skottækni og sprengikraft og mun hjálpa okkur mikið í sókninni. Okkur hefur vantað slagkraft hægra megin og nú er það undir okkur komið að aðlaga Teit að okkar leik og hugmyndafræði sem allra fyrst,“ segir Machulla ennfremur.

Fyrri greinAnna Guðrún Evrópumeistari á nýju heimsmeti
Næsta greinGróðursettu tæpa hálfa milljón birkiplantna í september