Teitur skoraði fjórtán gegn Fjölni

Selfyssingar náðu í mikilvæg stig í Olísdeild karla í handbolta í dag þegar þeir sigruðu Fjölni 30-32 í hörkuleik á útivelli.

Fjölnismenn skoruðu fyrstu þrjú mörkin í leiknum og leiddu 6-2 þegar átta mínútur voru liðnar. Þá loksins vöknuðu Selfyssingar og minnkuðu muninn í 8-7. Fjölnir var samt skrefinu á undan út fyrri hálfleikinn og leiddu heimamenn 18-17 í hálfleik.

Seinni hálfleikurinn var jafn og spennandi allan tímann en þegar tíu mínútur voru eftir af leiknum kom frábær 5-1 kafli hjá Selfyssingum sem breyttu stöðunni úr 26-26 í 27-31 þegar fimm mínútur voru eftir. Selfyssingar héldu forystunni til leiksloka þó að Fjölnismenn hafi þjarmað vel að þeim í lokin.

Teitur Örn Einarsson var markahæstur Selfyssinga með 14/4 mörk, Árni Steinn Steinþórsson skoraði 5, Hergeir Grímsson og Haukur Þrastarson 4, Sverrir Pálsson 3 og Atli Ævar Ingólfsson 2.

Helgi Hlynsson átti fínan leik í marki Selfoss og varði 12/2 skot.

Með sigrinum eru Selfyssingar komnir upp í 4. sæti deildarinnar með 18 stig.

Fyrri greinSkjálfti upp á 3,8 í Skjaldbreiði
Næsta greinGefum jólaljósum lengra líf