Taphrinunni lokið

Selfyssingar fagna marki Þorsteins Arons Antonssonar. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Eftir fimm töp í röð í Lengjudeild karla í knattspyrnu unnu Selfyssingar öruggan sigur á Grindavík á heimavelli í kvöld, 2-0.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik en Selfyssingar sköpuðu sér mun betri færi. Staðan var 0-0 í leikhléi.

Seinni hálfleikurinn hófst á flugeldasýningu. Valdimar Jóhannsson skoraði eftir fjórar mínútur með góðu skoti úr miðjum vítateignum eftir sendingu frá Breka Baxter og frábæran undirbúning Ingva Rafns Óskarssonar. Í kjölfarið fengu bæði lið fín færi en Selfossvörnin stóð vaktina vel með Stefán Ágústsson þar fyrir aftan í markinu.

Selfyssingar voru líklegri til að bæta við marki og það kom uppúr hornspyrnu á 87. mínútu. Adrian Sanchez átti þá skot að marki sem markvörður Grindavíkur varði en Þorsteinn Aron Antonsson var vel vakandi og skallaði frákastið í opið markið.

Þrátt fyrir sigurinn eru Selfyssingar ennþá í 10. sæti deildarinnar, nú með 13 stig og eiga leik til góða á næstu tvö lið fyrir ofan sig, sem eru Þróttur og Grindavík með 14 og 15 stig.

Fyrri greinEnn bætir Snæfríður Íslandsmetið
Næsta greinEngin mörk í seinni hálfleik