Tap í mikilvægum leik

Árborg tapaði 2-3 þegar liðið fékk Berserki í heimsókn í 3. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Leikurinn var jafn í fyrri hálfleik og bæði lið áttu góð færi áður en gestirnir komust yfir með marki úr skyndisókn á 43. mínútu.

Staðan var 0-1 í hálfleik en Árborg komst yfir með tveimur mörkum á þremur mínútum í upphafi seinni hálfleiks. Fyrst skoraði Páll Óli Ólason eftir hornspyrnu og þremur mínútum síðar fór Kjartan Kjartansson á vítapunktinn og kom Árborg í 2-1.

Heimamenn voru steinsofandi þegar Berserkir jöfnuðu leikinn á 64. mínútu eftir aukaspyrnu utan af kanti þar sem einn Berserkjanna var óvaldaður í teignum.

Allt leit út fyrir 2-2 jafntefli en á 87. mínútu áttu Berserkir háa og „misheppnaða“ fyrirgjöf inn í teig sem Aron Leifsson í marki Árborgar misreiknaði og missti yfir sig í stöngina og inn.

Þar við sat og Árborg missti þarna af dýrmætu stigi í hinum hnífjafna A-riðli.

Fyrri greinÁin sem um eilífð streymir . . .
Næsta greinYfirburðir Ægis í eins marks sigri