Tap í lokaumferðinni

Ragnar Örn Bragason skoraði 12 stig í kvöld og tók 4 fráköst. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Þór Þorlákshöfn sótti Njarðvík heim í lokumferð úrvalsdeildar karla í körfubolta í kvöld.

Þórsarar höfðu að litlu að keppa í leiknum, enda 2. sætið í deildinni þeirra, en Njarðvík var að spila fyrir lífi sínu í deildinni. Það fór svo að lokum að Njarðvíkingar sigruðu, 88-73.

Heimamenn leiddu eftir 1. leikhluta en Þórsarar spiluðu vel í 2. leikhluta og tóku forystuna fyrir hálfleik, 43-46. Heimamenn voru mun ákveðnari í seinni hálfleik og megnið af honum eltu Þórsarar Njarðvíkinga, án þess að ná að brúa bilið.

Adomas Drungilas var stigahæstur Þórsara með 17 stig og 9 fráköst. Styrmir Snær Þrastarson og Davíð Arnar Ágústsson komu næstir með 14 stig.

Þór mætir Þór Akureyri í 8-liða úrslitum úrvalsdeildarinnar.

Tölfræði Þórs: Adomas Drungilas 17/9 fráköst, Styrmir Snær Þrastarson 14/4 fráköst/3 varin skot, Davíð Arnar Ágústsson 14/6 fráköst, Ragnar Örn Bragason 12/4 fráköst, Callum Lawson 5/9 fráköst, Halldór Garðar Hermannsson 3, Tómas Valur Þrastarson 2, Larry Thomas 2/6 fráköst, Ingimundur Orri Jóhannsson 2, Benedikt Þorvaldur G. Hjarðar 2, Emil Karel Einarsson 4 fráköst.

Fyrri greinSnorri Þór sló heimsmetið á ánni
Næsta greinVélaskemma brann í Landbroti