Tap í lokaumferðinni

Kvennalið Hamars tapaði fyrir deildarmeisturum Hauka að Ásvöllum þegar keppni í Domino's-deildinni lauk í kvöld, 87-73.

Leikurinn var jafn framan af fyrri hálfleik en Haukar náðu frumkvæðinu í 2. leikhluta og leiddu í hálfleik, 41-32. Hvergerðingar mættu vel stemmdir til síðari hálfleiks og söxuðu forskot Hauka niður jafnt og þétt. Hamar komst yfir í upphafi 4. leikhluta, 59-60, en þá svöruðu Haukar með 18-4 áhlaupi og gerðu út um leikinn.

Hamar lauk keppni í vetur á botni Domino’s-deildarinnar með sex stig, eins og Stjarnan sem hafði betur í innbyrðis viðureignum. Ekkert lið fellur úr deildinni á þessu tímabili en sjö lið tóku þátt í vetur og mun áttunda liðið bætast við Domino’s-deildina á næsta tímabili.

Tölfræði Hamars: Alexandra Ford 41 stig/6 fráköst/6 stoðsendingar, Salbjörg Ragna Sævarsdóttir 13 stig/6 fráköst, Íris Ásgeirsdóttir 12 stig/7 fráköst/5 stoðsendingar, Jenný Harðardóttir 3 stig, Jóhanna Herdís Sævarsdóttir 2 stig, Margrét Hrund Arnarsdóttir 2 stig.

Fyrri greinÁtta sækja um embætti landgræðslustjóra
Næsta greinAðalvinningurinn kom á miða númer 161