Tap í jafnteflisleik

Elvar Elí Hallgrímsson lék vel í kvöld, skoraði opinberlega átta mörk, sem í raun voru níu. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Ungmennalið Selfoss tapaði naumlega gegn ungmennaliði Vals í Grill66 deild karla í handbolta í kvöld, 35-34 á útivelli.

Reyndar var tapið það naumt að Selfoss-U skoraði einnig 35 mörk í leiknum en samkvæmt heimildum sunnlenska.is vantaði mark á töfluna, sem Selfoss-U skoraði í fyrri hálfleiknum. Dómararnir misstu hins vegar af því og því var ekki hægt að leiðrétta stöðuna.

Valsmenn voru sterkari í fyrri hálfleiknum og leiddu 20-16 í hálfleik en Selfyssingar náðu vopnum sínum í seinni hálfleiknum og komu til baka, en tókst ekki að tryggja sér stig úr leiknum.

Elvar Elí Hallgrímsson var markahæstur Selfyssinga með 8-9 mörk og 100% skotnýtingu. Tryggvi Sigurberg Traustason skoraði 7/3, Sigurður Snær Sigurjónsson 5, Sölvi Svavarsson, Gunnar Flosi Grétarsson og Vilhelm Freyr Steindórsson 3, Haukur Páll Hallgrímsson 2 og þeir Valdimar Örn Ingvarsson, Hannes Höskuldsson og Gunnar Kári Bragason skoruðu allir 1 mark.

Alexander Hrafnkelsson varði 12 skot í marki Selfoss og var með 26% markvörslu.

Selfoss-U er áfram í 4. sæti deildarinnar með 22 stig en Valur-U er í 7. sæti með 9 stig.

Fyrri greinSlæm byrjun varð Hamri að falli
Næsta greinEllefu umferðarslys í síðustu viku