Tap í hörkuleik í Mosó

Tinna Sigurrós Traustadóttir skoraði fjögur mörk í leiknum. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss í handbolta tapaði í gærkvöldi fyrir sterku liði Aftureldingar í Grill 66 deildinni í Mosfellsbæ, 28-22.

Þrátt fyrir sex marka tap léku Selfyssingar mjög vel á köflum. Afturelding komst í 4-1 í upphafi leiks og framan af fyrri hálfleiknum var munurinn 4-5 mörk og stefndi í erfitt kvöld fyrir gestina. Selfyssingar gerðu svo gott áhlaup síðustu mínútur hálfleiksins og gengu til búningsklefa með jafna stöðu, 12-12.

Leikurinn hélst nokkuð jafn í seinni hálfleik og voru Selfyssingar komnir tveimur mörkum yfir þegar tíu mínútur voru liðnar, 15-17. Mosfellingar tóku þá við sér og komust yfir tíu mínútum síðar, 22-20. Selfyssingar fóru illa með færin á lokakaflanum og misstu leikinn frá sér þar og að lokum skildu sex mörk liðin að.

Tinna Sigurrós Traustadóttir var markahæst Selfyssinga með 10/4 mörk, Elínborg Katla Þorbjörnsdóttir skoraði 5/1, Agnes Sigurðardóttir 4, Elín Krista Sigurðardóttir 2 og Emilía Ýr Kjartansdóttir 1. Lena Ósk Jónsdóttir varði 5 skot í marki Selfoss og var með 16% markvörslu.

Næsti leikur Selfosskvenna er jafnframt síðasti heimaleikur þeirra í vetur, en hann fer fram kl. 13:30 á sunnudaginn þegar þær taka á móti U-liði Vals í Hleðsluhöllinni.

Fyrri greinUngur ökumaður horfir á eftir ökuskírteininu
Næsta greinHvar ætlar þú að starfa?