Tap í Grafarvoginum

Gary Martin skoraði fyrir Selfoss. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss tapaði 2-1 þegar liðið heimsótti Fjölni í Grafarvoginn í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld.

Selfoss byrjaði leikinn af krafti en var refsað með marki frá Fjölni strax á 7. mínútu. Í kjölfarið tóku Fjölnismenn öll völd á vellinum og bættu við öðru marki á 18. mínútu. Staðan var 2-0 í hálfleik og Selfyssingar ekki líklegir til afreka.

Það breyttist hins vegar í seinni hálfleiknum þar sem Selfyssingar spiluðu á köflum fínan fótbolta og þjörmuðu vel að Fjölnismönnum. Gary Martin minnkaði muninn í 2-1 með góðu marki á 57. mínútu og á næstu mínútum héldu Selfyssingar áfram að sækja. Þeir fundu þó ekki netmöskvana aftur en reyndu hið ítrasta á lokamínútunum þar sem þeir pressuðu duglega á Fjölni. Mörkin urðu þó ekki fleiri og lokatölur 2-1.

Fjölnir lyfti sér upp í 4. sæti deildarinnar með sigrinum en Selfoss situr áfram í 10. sæti með 9 stig þegar keppni í 1. deildinni er hálfnuð.

Fyrri greinÁlfrún setti tvö ný met
Næsta greinLétu drauminn rætast og opnuðu vinnustofu á Selfossi