Tap í fyrsta leik Hamars

Hamar tapaði opnunarleiknum á leiktíðinni þegar liðið tók á móti Skallagrími í fyrirtækjabikar karla í körfubolta í íþróttahúsinu í Hveragerði í kvöld. Lokatölur urðu 70-82.

Eftir rúmar fjórar mínútur var staðan 11-10 fyrir Hamri en gestirnir tóku þá á sprett og leiddu að loknum 1. leikhluta, 17-28. Skallagrímur jók forskot sitt enn frekar í 2. leikhluta og staðan í hálfleik var 29-48.

Hamar skoraði sex fyrstu stigin í síðari hálfleik og minnkaði muninn í 13 stig en undir lok 3. leikhluta kom góður kafli gestanna sem tóku 2-12 áhlaup og leiddu 43-65 þegar síðasti fjórðungurinn hófst. Heimamenn komu til baka á síðustu tíu mínútunum en munurinn var of mikill. Tólf stig skildu liðin að í lokin, 70-82.

Tveir leikmenn stóðu uppúr hjá Hamri í kvöld, Halldór Gunnar Jónsson skoraði 22 stig en bestur hjá Hamri var Danero Thomas með 20 stig og 12 fráköst auk 6 stolinna bolta. Snorri Þorvaldsson og Bragi Bjarnason skoruðu 6 stig, Bjarni Rúnar Lárusson 5, Aron Freyr Eyjólfsson 4, Sigurbjörn Jónasson 3 og þeir Stefán Halldórsson og Ingvi Guðmundsson skoruðu báðir 2 stig.

Fyrri grein10. bekkingar aðstoða í skólanum
Næsta greinAftur tapaði Selfoss með einu