Tap í fyrsta leik Gríms og Árna Steins

Selfoss tapaði 29-23 þegar liðið mætti Haukum á útivelli í dag í Olísdeild-kvenna í handbolta. Þetta var fyrsti leikur liðsins undir stjórn Gríms Hergeirssonar og Árna Steins Steinþórssonar.

Haukar höfðu forystuna allan tímann og náðu mest ellefu marka forskoti í seinni hálfleik, 22-11, en Selfoss spýtti í undir lokin og náði að minnka muninn í sex mörk.

Selfoss er áfram í sjöunda og næstneðsta sæti deildarinnar en Haukar fóru upp í þriðja sætið með sigrinum.

Hrafnhildur Hanna Þrastardóttir var markahæst í liði Selfoss með 8 mörk, Hulda Dís Þrastardóttir skoraði 6, Kristrún Steinþórsdóttir og Perla Ruth Albertsdóttir 3 og þær Dijana Radojevic, Arna Kristín Einarsdóttir og Margrét Katrín Jónsdóttir skoruðu allar 1 mark.