Þór Þorlákshöfn tók á móti Álftanesi í fyrsta heimaleik sínum í úrvalsdeild karla í körfubolta í vetur. Álftanes hafði sanngjarnan sigur, 70-89.
Þórsarar mættu ekki til leiks fyrr en rúmar sex mínútur voru liðnar af leiknum en staðan var þá 3-15, Álftanesi í vil. Þór náði að minnka muninn í 4 stig en staðan var 16-22 að loknum 1. leikhluta. Álftnesingar héldu öruggu forskoti allan 2. leikhluta, þar sem lítið gekk í sókninni hjá Þórsurum og staðan var 29-42 í hálfleik.
Þriðji leikhlutinn var jafn en Þórsurum gekk ekkert að vinna niður forskot gestanna. Það sama var upp á teningnum í síðasta fjórðungnum, þar sem Álftanes hafði undirtökin og Þórsarar voru hvergi nálægt því að minnka muninn.
Jacoby Ross var stigahæstur Þórsara með 21 stig og 10 stoðsendingar, Konstantinos Gontikas skoraði 17 stig og tók 8 fráköst og Rafail Lanars skoraði 13 stig og tók 9 fráköst.
Þórsarar eru í 11. sæti deildarinnar án stiga, þegar tveimur umferðum er lokið. Álftanes er á toppnum með fullt hús stiga.
Tölfræði Þórs: Jacoby Ross 21/6 fráköst/10 stoðsendingar, Konstantinos Gontikas 17/8 fráköst, Rafail Lanaras 13/9 fráköst/6 stoðsendingar, Lazar Lugic 6/8 fráköst, Emil Karel Einarsson 5/4 fráköst, Skarphéðinn Árni Þorbergsson 5, Davíð Arnar Ágústsson 3/4 fráköst.
