Tap í bragðdaufum úrslitaleik

KFR tapaði fyrir KV, 1-2, í úrslitaleik 3. deildar karla í knattspyrnu á KR-vellinum í dag. Úrslitin réðust í framlengingu.

Liðin virkuðu bæði þreytt og í lið KFR vantaði þrjá lykilmenn vegna leikbanna, þá Helga Ármannsson, Lárus Viðar Stefánsson og Jóhann Gunnar Böðvarsson. Án þessar þriggja kryddstauka var leikurinn gríðarlega bragðdaufur en KV menn voru sterkari í fyrri hálfleik. Þeir komust yfir á 45. mínútu og staðan var 0-1 í hálfleik.

Seinni hálfleikur var jafnvel bragðdaufari en sá fyrri en KV var meira með boltann og átti hættulegri færi. KFR ógnaði marki vesturbæinga lítið og jöfnunarmarkið, sem Andrezej Jakimczvk skoraði á 81. mínútu kom þvert gegn gangi leiksins og algjörlega uppúr þurru eftir hnitmiðað skot hægra megin úr vítateignum.

Markið tryggði Rangæingum framlengingu en í henni var það sama uppi á teningnum. KV stjórnaði leiknum og skoraði sigurmarkið á 99. mínútu. Vesturbæingar fengu þá gefins aukaspyrnu þegar leikmaður þeirra kiksaði boltann á miðjunni og féll. Dómarinn dæmdi aukaspyrnu sem KV stakk hratt inn á sóknarmann sem skoraði af öryggi framhjá Maciej Majewski í marki KFR.

Vesturbæingar voru svo nær því að bæta við mörkum en KFR bjargaði m.a. á línu og Majewski átti eina sjónvarpsmarkvörslu eftir gott skot KV-manna. Hinu megin á vellinum var lítið að gerast og þegar upp var staðið unnu KV menn sanngjarnan sigur.

Eftir leik tóku Rangæingar við silfrinu áður en KV fékk afhent deildarmeistaraverðlaunin.

Fyrri greinSmalað í Leiðvelli
Næsta greinÖruggur sigur tryggði Pepsideildarsæti