Tap gegn toppliðinu

Raúl skoraði mark Selfyssinga. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Selfoss heimsótti Njarðvík í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Liðin eru að berjast á sitthvorum enda töflunnar og fór svo að lokum að Njarðvík vann 2-1 sigur.

Leikurinn var tíðindalaus fyrsta korterið en á 19. mínútu fengu Selfyssingar vítaspyrnu og úr henni skoraði Raúl Tanque af miklu öryggi. Forysta Selfyssinga hélt þó ekki lengi því Njarðvík jafnaði metin uppúr hornspyrnu á 28. mínútu. Njarðvík var meira með boltann í kjölfarið en tókst ekki að skora.

Staðan var 1-1 í hálfleik og Njarðvíkingar fengu kjörið færi til að komast yfir á upphafsmínútum seinni hálfleiks, þeir fengu þá dæmda vítaspyrnu en Dominik Radic skaut framhjá úr spyrnunni. Njarðvík hélt áfram að stýra leiknum og fengu þeir nokkur ágæt færi áður en þeir komust yfir aftur á 79. mínútu. Það reyndist síðasta mark leiksins en hvorugu liðinu tókst að bæta við mörkum á lokakaflanum.

Selfoss er áfram í 9. sæti deildarinnar með 13 stig en Njarðvík er á toppnum með 34 stig.

Fyrri greinTólfti sigur Selfoss í röð
Næsta greinUppsveitir undir á Ísafirði