Tap gegn Stjörnunni

Selfyssingar biðu lægri hlut þegar þeir fengu Stjörnuna í heimsókn í 1. deild karla í handbolta í gærkvöldi. Stjarnan sigraði 25-27 í hörkuleik.

Fyrri hálfleikur var í járnum en staðan var 12-13 í leikhléinu. Í síðari hálfleik var það sama uppi á teningnum, Selfyssingar börðust vel og náðu að jafna 18-18. Stjarnan náði þá aftur þriggja marka forskoti en Selfyssingar töpuðu mörgum boltum á síðustu tíu mínútunum og misnotuðu auk þess tvö víti. Þrátt fyrir það tókst þeim að minnka muninn aftur í eitt mark en lengra komust þeir ekki.

Atli Kristinsson var markahæstur Selfyssinga með 7 mörk, Guðni Ingvarsson og Hörður Bjarnarson skoruðu báðir 4, Matthías Halldórsson 3, Eyþór Lárusson 2 og þeir Andri Hallsson, Andri Már Sveinsson, Magnús Magnússon og Gunnar Ingi Sveinsson skoruðu allir eitt mark.

Helgi Hlynsson varði 15/1 skot og Sverrir Andrésson 3.

Með sigri hefði Selfoss getað jafnað Stjörnuna að stigum en eftir leikinn er Stjarnan í 4. sæti með 7 stig en Selfoss í 5. sæti með 3 stig.

Fyrri greinBiðröð við nýja verslunarmiðstöð
Næsta greinRakel og Helga Norðurlandameistarar