Tap gegn nýliðunum í fyrsta leik

Hamar hóf keppni í Iceland Express deild karla í körfuknattleik í kvöld með því að tapa fyrir nýliðum Hauka á heimavelli, 82-89.

Leikurinn var hnífjafn framan af og skiptust liðin átján sinnum á því að halda forystunni, allt fram í 4. leikhluta.

Haukar leiddu með tveimur stigum í hálfleik, 38-40, og náðu svo góðum spretti undir lok 3. leikhluta þar sem þeir skoruðu þrettán stig í röð og komust í 56-67.

Hamarsmenn girtu sig í brók undir lokin og náðu að komast yfir þegar rúmar þrjár mínútur voru eftir en hlutirnir féllu með Haukum á lokamínútunum. Hamar treysti mikið á Andre Dabney á lokasprettinum á meðan lítið kom út úr öðrum leikmönnum í sókninni.

Dabney var stigahæstur Hamarsmanna með 28 stig og 7 stolna bolta. Darri Hilmarsson og Ellert Arnarson skoruðu báðir 17 stig og Svavar Páll Pálsson 10. Ragnar Nathanaelsson var með 4 stig, 11 fráköst og 3 varin skot og þeir Kjartan Kárason og Nerijus Taraskus skoruðu báðir 3 stig.

Fyrri greinBjörn Kristinn þjálfar Selfoss
Næsta grein„Ég skammast mín mest af öllum“