Tap eftir framlengingu í Frystikistunni

Kvennalið Hamars tapaði naumlega þegar Þór Akureyri kom í heimsókn í gær í Frystikistuna í Hveragerði í 1. deildinni í körfubolta.

Hamar byrjaði leikinn betur en Þórsarar sneru taflinu við í 2. leikhluta og staðan var 32-33 í leikhléi.

Þriðji leikhluti var hnífjafn en í upphafi þess fjórða skoruðu Þórsarar tíu stig í röð og komust í 46-57. Hamarskonur svöruðu hins vegar með frábærum kafla og jöfnuðu 64-64 þegar 38 sekúndur voru eftir af leiknum. Hvorugt liðið hitti úr síðustu sóknum sínum og því fór leikurinn í framlengingu.

Þórsarar reyndust sterkari í framlengingunni og náðu fljótlega sex stiga forskoti sem Hamar náði ekki að brúa.

Álfheiður Þorsteinsdóttir og Marín Laufey Davíðsdóttir áttu báðar stórleik fyrir Hamar og voru öflugar á báðum endum vallarins.

Tölfræði Hamars: Marín Laufey Davíðsdóttir 29/17 fráköst/3 varin skot, Álfhildur E. Þorsteinsdóttir 15/18 fráköst/6 stoðsendingar, Bjarney Sif Ægisdóttir 9/6 fráköst, Helga Sóley Heiðarsdóttir 6, Gígja Marín Þorsteinsdóttir 5, Katrín Eik Össurardóttir 4/4 fráköst, Ragnheiður Magnúsdóttir 4.

Fyrri greinÁtján Selfyssingar í landsliðsverkefnum
Næsta grein„Mínir strákar eru í toppstandi“