Tap eftir æsispennandi lokamínútur

Selfyssingar voru hársbreidd frá því að knýja fram jafntefli þegar liðið mætti Aftureldingu í uppgjöri botnliða N1 deildar karla í handbolta í kvöld.

Þegar fimm mínútur voru eftir af leiknum leiddi Afturelding með fjórum mörkum, 27-23, en Selfyssingar skoruðu þá fjögur mörk í röð. Ragnar Jóhannsson jafnaði, 27-27, úr vítakasti þegar rúmar 20 sekúndur voru eftir af leiknum. Heimamenn fundu hins vegar glufu í Selfossvörninni í síðustu sókninni og sigurmarkið kom þegar sjö sekúndur voru eftir af leiknum. Lokatölur 28-27.

Selfyssingar byrjuðu betur og komust í 1-4 en Mosfellingar skoruðu þá fimm mörk í röð. Fyrri hálfleikur var kaflaskiptur, Selfoss komst aftur yfir, 9-10, en Afturelding leiddi í hálfleik, 14-13.

Heimamenn byrjuðu betur í seinni hálfleik en Selfyssingar eltu þá eins og skugginn. Mosfellingar náðu mest fimm marka forskoti, 25-20, en Selfossliðið girti sig í brók á lokakaflanum eins og áður sagði.

Guðjón Drengsson var markahæstur Selfyssinga með 10/2 mörk og Ragnar Jóhannsson skoraði 6/1.