Tap á Skipaskaga

FSu heimsótti ÍA í 1. deild karla í körfubolta í gærkvöldi. Heimamenn voru sterkari í seinni hálfleik og sigruðu, 95-83.

Fyrsti leikhluti var jafn en undir lok hans sneri ÍA stöðunni úr 12-15 í 20-17 og þannig stóðu leikar þegar tíu mínútur voru liðnar af leiknum. Jafnræðið hélt áfram í 2. leikhluta, ÍA komst í 38-27 með tólf stigum í röð en FSu svaraði fyrir sig og staðan var 42-40 í hálfleik.

Heimamenn voru sterkari í 3. leikhluta og náðu þá tíu stiga forskoti, 74-64. Skagamenn gerðu svo út um leikinn á upphafsmínútum 4. leikhluta þegar þeir skoruðu 17 stig gegn 4 og komust í 91-68. FSu svaraði með 15-4 leikkafla og minnkaði muninn í 95-83 en þá var tíminn á þrotum og þetta urðu lokatölur leiksins.

Sæmundur Valdimarsson átti ágætan leik fyrir FSu og skoraði 16 stig. Steven Crawford skoraði 15 og þeir Bjarni Bjarnason og Orri Jónsson skoruðu báðir 13 stig.

FSu er í 8. sæti deildarinnar með 10 stig þegar tvær umferðir eru eftir. ÍG hefur 8 stig í 9. sæti og FSu hefur betur í innbyrðis viðureignum. Ef ÍG ætlar að bjarga sér frá falli þurfa þeir að sigra í síðustu tveimur umferðunum, gegn Skallagrím og Hamri sem eru í baráttunni í efri hluta deildarinnar.