Tap á Skaganum

Kristrún Rut Antonsdóttir. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Kvennalið Selfoss tapaði 2-1 þegar það heimsótti ÍA í Akraneshöllina í B-deild Lengjubikars kvenna í knattspyrnu í dag.

ÍA komst yfir strax á 7. mínútu leiksins þegar Brynja Valgeirsdóttir varð fyrir því óláni að setja boltann í eigið mark. Staðan var 1-0 í hálfleik en Skagakonur tvöfölduðu forskotið þegar tæpar tuttugu mínútur voru eftir af leiknum.

Kristrún Rut Antonsdóttir minnkaði svo muninn fyrir Selfoss á 89. mínútu með góðu skallamarki og þar við sat, lokatölur 2-1.

Þetta var annar leikur Selfoss í riðlinum en liðið bíður enn eftir sínum fyrsta sigri. Næsti leikur liðsins er gegn Keflavík á útivelli um næstu helgi.