„Taflan lýgur ekki“

Selfyssingar eru í næst neðsta sæti N1-deildar karla í handbolta eftir tapið gegn HK í kvöld.

„Við vorum lélegir í fyrri hálfleik, hreinlega ekki í úrvalsdeildarklassa,“ sagði Sebastian Alexandersson, þjálfari Selfoss í samtali við sunnlenska.is eftir leik.

HK náði átta marka forskoti í fyrri hálfleik en Selfoss náði að minnka muninn í þrjú mörk, 23-26 snemma í seinni hálfleik. „Þá kom röð af óheppilegum atvikum sem voru okkur ekki í hag,“ sagði Sebastian en á þessum kafla misstu dómararnir endanlega leikinn úr höndum sér. „Ég segi ekki orð,“ sagði Sebastian aðspurður um frammistöðu dómaranna.

„Við áttum kannski að halda betur haus en HK er með allt of gott lið til að tapa niður sex marka forskoti. Taflan lýgur ekki, þeir voru allt of góðir til þess að við ættum möguleika á þessu en það munaði litlu,“ sagði Sebastian.

Selfoss hefur tvö stig í 7. sæti deildarinnar, eins og Afturelding sem hefur betur í innbyrðis viðureignum liðanna. Valsmenn eru stigalausir á botninum.

Fyrri greinIngibjörg Snorra: Ég býð mig fram til Stjórnlagaþings!
Næsta greinFimm sunnlensk svæði á rauðum lista