Tæpara verður það ekki

Kyle Johnson var stigahæstur Þórsara í kvöld með 25 stig. sunnlenska.is/Guðmundur Karl

Íslandsmeistarar Þórs töpuðu naumlega í öðrum leiknum gegn Grindavík í 8-liða úrslitum Íslandsmótsins í körfubolta í Grindavík í kvöld, 86-85. Staðan í einvíginu er því 1-1.

Heimamenn byrjuðu betur í leiknum og leiddu 29-20 eftir 1. leikhluta en Þór minnkaði muninn í 2. leikhluta og staðan var 46-43 í hálfleik.

Þórsarar komu af krafti inn í seinni hálfleikinn og þegar fjórði leikhluti hófst var staðan 64-70. Þá fór sóknarleikur meistaranna að hiksta og eftir þrjár þriggja stiga körfur í röð komust Grindvíkingar yfir, 75-72. Við tók æsispennandi kafli þar sem liðin skiptust á um að hafa forystuna. Grindvíkingar áttu síðustu sókn leiksins og skoruðu sigurkörfuna, 86-85, þegar þrjár sekúndur voru eftir af leiknum.

Kyle Johnson var stigahæstur Þórsara í kvöld með 25 stig, Luciano Massarelli skoraði 22 og Glynn Watson 19, en hann var framlagshæstur Þórsara í kvöld, tók 9 fráköst og sendi 8 stoðsendingar. Daniel Mortensen skoraði 10 stig og tók 10 fráköst og Ronaldas Rutkauskas skoraði 6 stig og tók 10 fráköst.

Næsti leikur liðanna verður í Þorlákshöfn á þriðjudagskvöld klukkan 20:15.

Tölfræði Þórs: Kyle Johnson 25, Luciano Massarelli 22, Glynn Watson 19/9 fráköst/8 stoðsendingar, Daniel Mortensen 10/10 fráköst, Ronaldas Rutkauskas 6/10 fráköst, Emil Karel Einarsson 3, Davíð Arnar Ágústsson 6 fráköst.

Fyrri greinSex framboðlistar í Árborg
Næsta greinMenning er lífsgæði