Tæpt hjá Stokkseyri gegn Afríku

Stokkseyringar unnu nauman sigur á Afríku þegar liðin mættust á Stokkseyrarvelli í 4. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Valdimar Gylfason skoraði sigurmarkið úr vítaspyrnu á lokamínútu leiksins.

Stokkseyringar voru miklu betri í fyrri hálfleik en náðu ekki að komast á blað þrátt fyrir margar álitlegar sóknir. Það var því töluvert gegn gangi leiknum að Afríka komst yfir á 42. mínútu. Markið var líka slysalegt því að Eyþór Gunnarsson, markvörður Stokkseyringa, missti háan bolta utan af velli yfir sig og í markið.

Tveimur mínútum síðar svaraði Valdimar Gylfason með góðu skoti utan teigs og boltinn söng í netinu. 1-1 í hálfleik.

Síðari hálfleikur var mun jafnari en Afríka byrjaði á stórsókn og varði Eyþór vel í tvígang á upphafsmínútum seinni hálfleiks. Hann þurfti að taka á honum stóra sínum tvívegis í viðbót því framan af síðari hálfleik voru Afríkumenn miklu beittari fram á við þó að Stokkseyri hafi verið meira með boltann.

Eftir því sem leið á síðari hálfleik þyngdust sóknir Stokkseyringa þó að þeir næðu ekki að skapa mikið meira en hálffæri sem rötuðu ekki á markramma Afríkumanna. Eitthvað varð þó undan að láta og á 89. mínútu dæmdi Antoine van Kasteren umdeilda vítaspyrnu þegar leikmaður Afríku fékk boltann upp í hendina af stuttu færi innan vítateigs. Gestirnir mótmæltu dómnum og uppskáru tvö gul spjöld í kjölfarið. Annar leikmannanna þakkaði dómaranum fyrir spjaldið á framandlegan hátt og uppskar annað gult og rautt í kjölfarið.

Valdimar Gylfason fór á vítapunktinn og skoraði nokkuð örugglega framhjá markverði Afríku. Lokatölur urðu því 2-1 og Stokkseyri hefur nú 3 stig í 5. sæti A-riðils.

Fyrri greinSEEDS kynnir spennandi ungmennaskipti
Næsta greinEgill Norðurlandameistari