Sytnik tryggði Selfyssingum langþráð stig

Eftir fimm leiki í röð án sigurs og mikla markaþurrð náðu Selfyssingar að leggja Framara að velli í 1. deild karla í knattspyrnu í kvöld. Lokatölur urðu 1-2.

„Ég er mjög hamingjusamur. Svona karaktersigrar gefa okkur mjög mikið. Við byggjum ofan á þetta og höldum áfram. Við erum búnir að vera að reyna allskonar hluti í síðustu leikjum en núna er þetta vonandi að koma. Það er gaman á æfingum og góð stemmning í hópnum,“ sagði Gunnar Borgþórsson, þjálfari Selfoss, í samtali við sporttv.is. Aðspurður hvað skóp sigurinn í kvöld sagði Gunnar að viljinn hjá liðinu hafi verið gríðarlega mikill og það hafi sýnt sig bæði í undirbúningnum fyrir leikinn og svo inni á vellinum. „Vinnusemin var ótrúlega mikil, sérstaklega í seinni hálfleik. Við héldum okkur við skipulagið og vorum agaðir og það skóp þetta.“

Frábær mörk hjá Sytnik
Leikurinn fór fram í kulda og gjólu á gervigrasi Fram í Úlfarsárdal og léku Selfyssingar með vindinn í bakið í fyrri hálfleik.

Færin voru ekki mörg framan af og þegar leið á fyrri hálfleikinn virtust Framarar líklegri til þess að skora.

Það er hins vegar ekki nóg að vera líklegri því á 30. mínútu skoruðu Selfyssingar úr sínu fyrsta alvöru færi. Denis Sytnik pressaði þá aftasta varnarmann Fram á miðjum vellinum, náði af honum boltanum og geystist einn upp völlinn. Hann átti svo ekki í neinum vandræðum með að skora með hnitmiðuðu skoti frá vítateigslínunni í bláhornið.

Þetta var fyrsta mark Sytnik fyrir Selfoss í sumar og löngu kominn tími á það. Markið var einnig fyrsta mark Selfoss í 394 mínútur og fyrsta mark Sytnik í deildarkeppni síðan 8. júní 2013 þegar hann skoraði fyrir Grindavík gegn Völsungi.

Framarar héldu áfram að sækja og áttu meðal annars dauðafæri á 41. mínútu. Selfoss fékk svo hornspyrnu á 43 mínútu og uppúr henni skoraði Sytnik sitt annað mark með góðu skoti hægra megin úr vítateignum í fjærhornið.

Framarar sterkari í seinni
Staðan var 0-2 í hálfleik og seinni hálfleikur byrjaði rólega. Selfyssingar biðu átekta og Framarar fengu ekki færi fyrr en á 55. mínútu að Vignir Jóhannesson varði vel lúmskan bolta utan af kanti.

Selfyssingar léku mjög vel á köflum í vörninni og gáfu Frömurum fá færi á sér. Heimamennirnir voru þó líklegri til að skora, fengu dauðafæri á 62. mínútu og tíu mínútum síðar sundurspiluðu þeir Selfossliðið en Brynjar Már Björnsson komst fyrir skotið á síðustu stundu og bægði því í horn.

Eina færi Selfyssinga í seinni hálfleik kom á 74. mínútu þegar Andy Pew átti hörkuskalla eftir hornspyrnu sem Cody Mizell, markvörður Fram, varði í þverslána og yfir.

Fimm mínútum síðar minnkuðu Framarar muninn þegar Orri Gunnarsson skoraði með góðu skoti utan teigs í bláhornið. Framarar héldu áfram að reyna en fengu ekki teljandi færi og Selfossvörnin og Vignir héldu fengnum hlut.

Þrátt fyrir góðan sigur eru Selfyssingar í sömu stöðu í 10. sætinu, einu stigi á undan Gróttu, því Grótta vann ótrúlegan útisigur á Fjarðabyggð, 2-3 í kvöld.

Selfoss er með 16 stig í 10. sæti, einu stigi á eftir Fram og einu stigi á undan Gróttu.

Næsti leikur Selfyssinga er á heimavelli gegn Fjarðabyggð á laugardaginn.

Fyrri grein„Vonum að við séum Selfyssingum til sóma“
Næsta greinViking heldur í Jón Daða – mikið í húfi fyrir Selfoss